Kennarasmiðjur

Vísindasmiðjan heldur reglulega vinnusmiðjur fyrir kennara. Haustið 2022 voru haldnar fimm vinnusmiðjur fyrir kennara á grunnskólastigi. Næstu smiðjur verða auglýstar þegar dagsetningar skýrast. Sendu tölvupóst á visindasmidjan@hi.is ef þú hefur hefur einhverjar fyrirspurnir eða vilt skrá þig á póstlista Vísindasmiðjunnar.

Samfélagstengd stærðfræði

Vinnusmiðja fyrir stærðfræði-kennara á unglinga- eða framhaldsskóla-stigi sem vilja kynnast samfélagslegum snertiflötum stærðfræðinnar.

Í smiðjunni skoða þátttakendur hvernig nota megi tiltölulega einfalda stærðfræði til þess að fletta ofan af ýmsum samfélagslegum fyrirbærum. Sem dæmi munu þátttakendur fá innsýn í virkni reiknirita (algóriþma), tölfræði lögreglustoppa í bandaríkjunum, samfélagsleg áhrif heimskorta og af hverju ekki er til neitt sanngjarnt kosningakerfi.

Leikur að samrásum

Vinnusmiðja fyrir náttúrufræði-kennara á mið-, unglinga- eða framhaldsskóla-stigi sem vilja kynnast notkun samrása í rafrásum.

Í smiðjunni skoða þátttakendur einfaldar samrásir (e. integrated circuits) á við smára (e. transistor), tugteljara (e. decade counter), og 555 tímarásarinnar til að setja saman fágaðar rafrásir með skemmtilegri virkni.

Ljósakassinn

Ljósakassa­­vinnu­­­smiðjan er ætluð kennurum sem vilja kynnast innihaldi ljósakassans, hvernig hægt er að nýta hann í sýnikennslu eða verklegar æfingar fyrir nemendur, og fræðunum sem að baki fyrirbærunum sem tækin sýna.

Vinnusmiðjan er verkleg þar sem farið er yfir nokkur verkefni sem hægt er að vinna með nemendum og eðlisfræðina sem liggur að baki þeim.

Dulkóðun

Vinnusmiðja fyrir stærðfræði-kennara á unglinga- eða framhaldsskóla-stigi sem vilja kynnast skemmtilegum aðferðum til að dulkóða skilaboð og stærðfræðinni sem liggur þeim að baki.

Í smiðjunni leika þátttakendur sér með alls konar dulmál og skoða hvernig þau virka, hvernig hægt er að senda leynileg skilaboð, hvernig tákna má texta og tölur og af hverju það skiptir okkur máli. Farið verður í m.a. dulkóðunaraðferðirnar pig pen, cesar cypher, playfair, morse kóða og sitthvað fleira.

Leikur að rafmagni

Vinnusmiðja fyrir náttúrufræði­kennara á mið- eða nglingastigi sem vilja auka skilning sinn á rafmagnsfræði og leikni sína í einföldum rafmagnsfræðiverkefnum sem nýta má í kennslu.

Markmið vinnusmiðjunnar er að þátttakendur rifji upp eða bæti þekkingu sína og skilning á nokkrum fyrirbærum í rafsegulfræði og kynnist einföldum verkefnum sem nýta megi kennslu.

Fyrstu skref með Microbit

Þessi kennarasmiðja er hugsuð sem kynning á Microbit tölvunni og inngangsverkefnum sem hægt er að vinna með nemendum án mikils tilkostnaðar eða undirbúnings.

Smiðjan er verkleg og Vísindasmiðjan útvegar micro:bit-ana. Mælst er til þess að þátttakendur mæti með fartölvu áþekka því sem nemendur þeirra mundu nota. Ekki er krafist neinnar undirstöðu í forritun.

Vísindasýningar

Þessi kennarasmiðja er á formi menntabúða þar sem kennarar fá ítarlega kynningu á undirbúningi, framkvæmd og námsmati nokkurra ólíkra gerða vísindasýninga í skólastarfi. Farið er yfir þær bjargir sem leita má í og hvað þarf að varast í undirbúningi og framkvæmd.

Náttúran í gegnum linsuna

Efling á áhuga og skilningi nemenda á náttúrufræði með notkun ljósmyndunar og myndbandstækni

Menntavísindasvið Háskóla Ísland í samstarfi við Vísindasmiðju Háskóla Íslands býður upp á námskeið í notkun ljósmyndunar og myndbandstækni í náttúrufræðikennslu.

Námskeiðið er að mestu verklegt. Unnið verður með þemað „Vorkoman í hverfinu“ en markmiðið er að þátttakendur geti útfært sambærileg verkefni á einfaldan hátt í sinni kennslu. Þátttakendur fara út og safna myndefni sem svo verður unnið úr með mismunandi myndvinnsluaðferðum.

Líkanagerð og mælingar

Vinnusmiðja fyrir kennara á framhaldsskólastigi í notkun forritunar til líkanagerðar og mælinga.

Notuð verða forritunarmálin Processing og Python og gagnleg verkfæri í kennslu kynnt til sögunnar. Verkefnin eru bæði eftir forskrift og opin þar sem þátttakendur leysa verkefni án þekktrar lausnar.

 

Rafrásir og tækjaforritun

Námskeiðið er eins dags námskeið og tekur fyrir nokkur efni til þess að búa til einföld en skemmtileg verkefni með skynjurum, rofum, ljósum og mótorum.

Farið verður yfir grunnhugtök í gerð rafrása; spennu, straum og viðnám, auk hliðtengingar og raðtengingar íhluta. Þessi fimm hugtök eru nægjanleg til að skilja verkefnin sem farið er í og velja hentuga íhluti í ný verkefni.